Saga Odda

ODDI hf.

Oddi hf. er stærsta útgerðar og hvítfisksvinnslu fyrirtækið á sunnanverðum Vestfjörðum í dag. Starfsemin hefur í gegnum tíðina falist í útgerð og vinnslu á bolfiski ásamt markaðssetningu á dýrmætu íslensku sjávarfangi á erlendri grund. Árið 2020 bætist svo við vinnsla á laxi. Fjölbreytni einkennir framleiðslu Odda, sem er fyrst og fremst á ferskum, frystum og söltuðum afurðum undir mjög ströngum gæðastöðlum. Þessi stefna hefur skilað sér í traustu orðspori Odda fyrir gæði og ferskleika vörunnar. Fyrirtækið er með aðsetur að Eyrargötu 1 á Patreksfirði (við Patrekshöfn) og starfa hjá því um 75 manns á sjó og í landi.

Upphafið og framgangurinn

Oddi er gamalgróið fyrirtæki á Patreksfirði en rekstur þess hófst árið 1967. Stofnendur voru skipstjórinn Jón Magnússon og stýrimaðurinn Hjalti Gíslason ásamt eiginkonum sínum Lilju Jónsdóttur og Helgu Pálsdóttur auk Sigurgeirs Magnússonar, bankastarfsmanns. Rekstur Odda hófst í smáum stíl en upphaflegur tilgangur starfseminnar var að vinna afla af 100 lesta bátnum Vestra BA-63. Samfara því fór fyrirtækið af stað með skreiðar- og saltfisksverkun í 600 fm nýbyggingu við höfnina á Patreksfirði. Með auknu umfangi var húsnæðið stækkað og náði um 2600 fm árið 1981. Sökum hruns á erlendum mörkuðum, lagðist skreiðarverkun alfarið af árið 1982. Saltfiskurinn er ennþá mikilvæg framleiðsla þó að það magn sem fer í þá vinnslu er miklu minna en áður. Síðustu ár hafa ferskar afurðir tekið fram úr og frystar sjávarafurðir fylgja þar strax á eftir.

Líkt og önnur íslensk sjávarútvegsfyrirtæki gekk Oddi í gegnum rekstrarörðugleika á níunda áratug síðustu aldar.
Í lok ársins 1989 var uppbygging fyrirtækisins stokkuð upp. Ákveðið var að opna eignarhaldið með stofnun almenningshlutafélags sem nyti stuðnings og þátttöku sveitarfélagsins ásamt öðrum fjárfestum. Markmið þessara aðgerða var að rífa starfsemi Odda upp sem kjölfestuna í atvinnulífi Patreksfjarðar, eftir mikil áföll árin á undan. Áhrifin af þessari umbreytingu létu ekki á sér standa. Hlutafé var aukið verulega og gerði félaginu kleift að fjárfesta í nýbyggðu frystihúsi Hraðfrystihúss Patreksfjarðar við Patrekshöfn auk þess sem skipakosturinn var endurbættur og fjárfest í aflaheimildum. Eftir hrunið 2008 varð aftur áfall í starfseminni og í framhaldi var félagið endurreist með lykilstjórnendum og stuðningi fagfjárfesta. Fljótlega var fjárfest í nýjum tæknibúnaði og útgerð og félagið þannig styrkt til að takast á við nýjar áskoranir. Árið 2020 var svo fjárfest í laxavinnslubúnaði til að nýta tækifæri sem laxeldið á fjörðunum gefur. Eignarhald breyttist svo frekar árið 2020 þegar lykilstjórnendur félagsins Skjöldur og Sigurður verða aðaleigendur félagsins. Oddi er nú stærsti vinnuveitandinn á Patreksfirði. Velta fyrirtækisins á ári hefur verið um 2000-2200 milljónir króna en stefnir vel yfir 3000 milljónir eftir að laxavinnslan hófst.

Útgerðin

Útgerð Odda hefur að meginmarkmiði að stunda ábyrgar veiðar á íslenskum fiskistofnum, í fullri sátt og virðingu við lífríki sjávar á miðunum umhverfis landið. Einnig er sífellt unnið að því að auka aflaheimildir félagsins og hámarka nýtingu þeirra. Á síðustu árum hafa skipin gengið í gegnum miklar endurbætur, sem miða að betri aðbúnaði um borð, tryggari gæðum hráefnis og hagkvæmari rekstri útgerðarinnar. Öllu hráefni hennar er nú landað til eigin vinnslu en Um 60% aflans kemur frá skipum fyrirtækisins, Núpi BA-69 og Patreki BA 64, auk aðkeypts sjávarfangs af fiskmörkuðum og af ýmsum krókabátum sem gerðir eru út á svæðinu.

Vinnslan

Hjá Odda er unnið úr um 4-5000 tonnum af hráefni á ári, einkum úr þorski, steinbít og ýsu. Um ¾ hluti aflans er þorskur en hann er unnin jöfnum höndum í ferskar afurðir, frystar og saltaðar afurðir. Félagið var lengi vel einn af stærstu framleiðendum steinbítsafurða hér á landi en veiði og framleiðsla á steinbít hefur minnkað mjög mikið frá því sem það var.
Vinnslusalur félagsins er vel búinn hraðvirkum og háþróuðum tæknibúnaði sem hefur vakandi auga með framleiðslunni og gæðum hennar. Samkeppnishæfni vinnslunnar felst í sveigjanleika, afköstum og hagkvæmri framleiðslu. Markaðssetning afurða er unnin í nánu sambandi við erlenda kaupendur, ásamt því að eiga í samstarfi við sölusamtök og fagaðila um sölu afurða á erlendri grundu. Oddi selur mest af sínum afurðum í gegnum helstu sölu-og markaðsfyrirtæki landsins og er Bacco ehf stærsti viðskiptavinur félagsins. Oddi fer einnig með hlut í nokkrum öðrum hlutafélögum sem tengjast t.d. útgerð, vinnslu aukaafurða og fasteignum. Þá eru einnig í gangi ýmiss samstarfsverkefni við opinbera aðila og fleiri til að styrkja atvinnulífið á svæðinu. Að auki lætur Oddi reglulega eitthvað af hendi rakna til ýmissa góðgerðamálefna og átaksverkefna í heimabyggð.

Skipasaga Odda

Oddi var stofnaður árið 1967 sem hlutafélag um fiskvinnslu til að vinna afla af 100 lesta bátsins Vestra BA-63 í eigu sömu aðila. Annað samnefnt 200 lesta fley kom til heimahafnar frá Sauðárkróki árið 1972 en þá hafði Jón Magnússon ásamt fleirum stofnað í kringum þann rekstur útgerðarfélagið Vestra hf. Umrætt skip var selt árið 1993 og í staðinn keyptur 30 lesta bátur undir sama nafni. Árið 2000 lét Oddi hf og Vestri ehf. smíða tvö 100 lesta skip í Kína. Oddi seldi sitt skip árið 2004 og Vestri sitt árið 2005 og í staðinn keypti Vestri 230 lesta skip frá Stykkishólmi. Jón Magnússon og félagar komu að stofnun fleiri útgerðarfélaga á áttunda áratugnum. Eitt þeirra var Patrekur hf., stofnað 1975, sem keypti þann gamla 180 lesta stálbát Garðar BA 64, upphaflega smíðaður árið 1912, en hann var lagður í sátur í Patreksfirði árið 1980. Sama félag lét smíða fyrir sig í Stykkishólmi 172 lesta stálskipið Patrek BA-64 sem kom til heimahafnar árið 1982. Öll þessi fyrirtæki voru rekin sem ein heild undir stjórn Jóns Magnússonar og var afli bátanna meginuppistaðan í hráefnisöflun Odda hf. Árið 1977 kom fyrirtækið ásamt Ólafi Magnússyni, skipstjóra og Leif Halldórssyni stýrimanni að stofnun útgerðarfélagsins Blakks. Félagið keypti og gerði út 230 lesta bátinn Pálma BA-30 sem seldur var burt árið 1982. Eftir að Odda var breytt í almenningshlutafélag árið 1989 bættust við þrjú skip; 172 lesta fjölveiðiskipið Patrekur BA 64, 231 lesta togskipið Látravík BA 66 og Núpur BA 69 sem er sérútbúið til línuveiða. Skipafloti tengdur Odda í dag samanstendur af fyrrgreindum 255 lesta línubát Núpi BA-69 og 200 lesta línubátnum Patreki BA 64.