Saga Odda hf.

Oddi hf. Patreksfirði var stofnað árið 1967 af Jóni Magnússyni skipstjóra, Lilju Jónsdóttur, Hjalta Gíslasyni stýrimanni, Helgu Pálsdóttur og Sigurgeir Magnússyni bankastarfsmanni.

 

Tilgangur félagsins var að vinna afla af 100 lesta bát í eigu sömu aðila Vestra BA-63, auk annarra báta á staðnum.

Starfsemin hófst árið 1967 með saltfiskverkun í 600 fermetra nýbyggðu húsnæði, sem stækkað var eftir umfangi upp í 2.600 fermetra 1981.

 

Saltfiskverkun var aðalstarfssemi félagsins allt til ársins 1990 þegar frysting verður aðalvinnslan, en skreiðarverkun lagðist af að mestu árið 1982 vegna hruns á skreiðarmörkuðum, en nokkru áður hófst frysting alls auka afla.

 

Árið 1972 stofnuðu Jón Magnússon og fleiri útgerðarfélagið Vestra hf. um kaup og rekstur á 200 lesta báti, Vestra BA-63, sem keyptur var frá Sauðárkróki, hann var seldur árið 1993 og keyptur 30 lesta bátur með sama nafni.  Afla Vestra hefur verið landað að mestu hjá Odda alla tíð.  Árið 2000 var hafin smíði á nýju 100 lesta skipi í stað þess eldra, mb. Garðar BA 62 en hann var seldur árið 2003.

 

Árið 1975 stofnuðu sömu aðilar útgerðarfélagið Patrekur hf., sem keyptu hinn gamla 180 lesta stálbát Garðar BA 64. Hann var byggður árið 1912 og var lagt í sátur í botni Patreksfjarðar árið 1981. Sama ár var hafin smíði á nýju 172 lesta stálskipi í Stykkishólmi mb. Patreki BA-64. Þessi þrjú fyrirtæki voru rekin sem ein heild undir stjórn Jóns Magnússonar og var afli bátanna aðaluppistaða í hráefnisöflun Odda hf.

 

Árið 1977 tók Oddi hf. þátt í stofnun á útgerðarfélaginu Blakkur hf. sem keypti og gerði út 230 lesta bát Pálma BA-30 ásamt Ólafi Magnússyni skipstjóra og Leif Halldórssyni stýrimanni, en þetta skip var selt árið 1982.

 

Í lok árs 1989 verður mikil breyting  í uppbyggingu fyrirtækisins þegar ákveðið var af eigendum þess að gera félagið að almenningshlutafélagi með þátttöku sveitarfélagsins og annarra aðila með það að markmiði að félagið verði undirstöðufyrirtæki í atvinnulífi Patreksfirðinga, eftir mikil áföll á því sviði árin á undan. Var hlutafé aukið verulega og keypt frystihús við Patrekshöfn sem áður var í eigu Hraðfrystihúss Patreksfjarðar hf. auk þess þrjú skip en þau voru Patrekur BA 64, 172 lesta fjölveiðiskip, Látravík BA 66 231 lesta togskip og Núpur BA 69 182 lesta sérbúið til línuveiða. Oddi hf. hefur verið stærsti atvinnuveitandinn á Patreksfirði frá þessum tíma.

 

Uppistaða hráefnis er þorskur, steinbítur og ýsa. Þorskur er unninn jöfnum höndum í frystingu  og söltun og einnig seldar ferskar afurðir með flugi á markað erlendis. Ferskar afurðir eru jafnmikilvægar og saltaðarafurðir.  Steinbítur var í öðru sæti í mörg ár og var félagið  einn stærsti framleiðandi steinbítsafurða á Íslandi í mörg ár, en ýsa hefur vaxið jafnt og þétt og er nú í örðu sæti á eftir þorski.

 

Í dag gerir félagið út beitingavélabátinn mb.Núp BA-69 og línu- og dragnótabátinn Brimnes BA 800.  Er hráefnisöflun þessara báta aðaluppistaðan í vinnslunni auk afla af Vestra BA-63.  Þá eru hráefniskaup með samningum við aðra útgerðaraðila og af fiskmörkuðum um 20% af heildarhráefnisöfluninni.  Velta félagsins er um 1400 milljónir á ári og hefur vaxið hægt og bítandi á undanförnum árum. Oddi hf. er þátttakandi í nokkrum félögum aðallega í tengslum við þjónustu við útgerð og vinnslu.

 

Framkvæmdastjóri fyrirtækisins fram til ársins 1990 var Jón Magnússon skipstjóri. Hann var jafnframt skipstjóri á skipum félagsins Vestra BA 63 og Garðari BA 64 allt til ársins 1981. Núverandi framkvæmdastjóri er Sigurður Viggósson og hefur verið frá árinu 1990.

Vefumsjˇn