Skipverjar á Núp BA 69
Óhætt er að segja að fáir eða engir hafi orðið eins mikið fyrir barðinu á því vonda veðri sem verið hefur í vetur en sjómenn við Íslandsstrendur og þá sérstaklega á Vestfjarðarmiðum.
Oddi hf hefur í tæp þrjú ár séð verslunarkeðjunni COOP í Sviss fyrir nær öllum ferskum þorskafurðum sem eru í þeirra verslunum og til þess að það sé hægt þarf að senda nýjan og ferskan fisk af bestu gæðum 4-5 sinnum í viku 52 vikur á ári.
Starfsmenn Odda og þar með taldir sjómennirnir gera sér grein fyrir mikilvægi þess að þessi keðja slitni aldrei og hafa lagt mikið á sig til þess og þá sérstaklega í vetur.
Innflytjandinn og kaupandi af afurðunum fyrir Sviss ICE-CO sendi öllum sjómönnunum á Núpi og Brimnesi svissneskt súkkulaði fyrir að hafa í vetur, oftar en ekki í stormi og stórsjó, sótt sjóinn og komið með úrvals hráefni í land.
Þessi bragur fygldi sendingunni frá Sviss:
Í bátnum brestur og hvín
og beygur úr andlitum skín
En sama hvað er
á sjóinn ég fer
,,Já, sjómennskan er ekkert grín“
Í stafni stendur hann viss
og starir í freyðandi fiss
Þótt vont sé í sjó
ei maldar í mó
því menn vilja fisk, út í Sviss
Þó í slabbi og slori ég vaði,
að slægja þorskinn með hraði.
Ég brosi og hlæ
því borgað ég fæ
í svissnesku skúkkulaði..
Meðfylgandi er mynd af áhöfn Núps ánægðir með að vera komnir í páskafrí með súkkulaði frá Sviss.